Upphafið að prjónaævintýri Prjónafjörs

Prjónafjör Knitting - Prjónafjör

Fyrir tæpum 30 árum lærði ég að prjóna og hefur prjónið fylgt mér að mestu síðan þá. Fyrsta minning mín af mér að prjóna er þegar mamma var að kenna mér fyrstu tökin. Ég sat í fanginu á henni, hún hélt um hendurnar á mér og stýrði puttunum. Saman prjónuðum við hvítt vesti með rauðum kanti á litla dúkku sem hún hafði átt sem stúlka en ég síðan fengið. Mikið var hún fín í vestinu! Seinna, þegar ég var orðin unglingur og búin að prjóna ótal Barbieföt til viðbótar, prjónaði ég munstraða peysu úr bómullargarni á litlu systur mína. Þetta varð mikil uppáhaldspeysa sem hún notaði mikið og ofsalega var ég stolt af að sjá hana í peysunni.

Þetta finnst mér vera það besta við prjónaskapinn. Að sjá eitthvað fallegt verða til og hugsa til þess að þetta gat maður gert, alveg sjálfur!

Í mörg ár prjónaði ég eingöngu ungbarnaföt og barnaföt úr fínu garni. Þetta voru ótal heimferðarsett, húfur, sokkar og vettlingar. Árið 2009 fór ég að prjóna úr lopa og eftir það var ekki aftur snúið. Fyrst prjónaði ég eftir uppskriftum en mjög fljótlega fór ég að búa til mín eigin munstur og uppskriftir. Mér þótti það svo gaman að ég varð hreinlega prjónafíkill, gat ekki hætt og hver peysan af fætur annarri „datt“ af prjónunum. Stundum hefur mér fundist sem ég hafi hreinlega ekki tíma til að prjóna allt sem ég „þarf“ að prjóna. Að gamni mínu hóf ég að skrifa uppskriftirnar niður og fór að halda aðeins meira utan um þær. Þessar uppskriftir sem ég gerði í upphafi enduðu síðan í bókinni Prjónafjör sem kom út árið 2012. Síðan þá hef ég einnig gefið út Prjónafjör 2 árið 2016 og Prjónafjör 3 árið 2020.

Back to blog